Um Nora

Aðeins um NORA

Norræna Atlantssamstarfið (NORA) er ríkjasamstarf sem nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs og heyrir undir samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðastefnu. Samstarfið er byggt á vesturnorrænu samstarfsnefndinni frá 1981 sem breyttist í NORA þegar Noregur gerðist aðili að samstarfinu árið 1996. Tengsl NORA-landanna felast í landfræðilegri legu þeirra, sameiginlegum einkennum og áskorunum, ásamt sögulegum, stjórnsýslulegum og menningarlegum tengslum.

NORA vinnur að því að efla samstarf á svæðinu með það að markmiði að gera Norðuratlantssvæðið að öflugu, norrænu svæði sem einkennist af sterkri, sjálfbærri efnahagsþróun. Þetta er meðal annars gert með því að styðja við samvinnu milli fyrirtækja í atvinnurekstri og rannsókna- og þróunarsamtaka þvert á landamæri.

Nefnd NORA er skipuð tólf meðlimum, þremur frá hverju landi á NORA-svæðinu. Nefndin ákvarðar almenna stefnu í skipulagsáætlun NORA sem alla jafna nær yfir fjögurra ára tímabil. Einnig vinnur nefndin árlega framkvæmdaáætlun þar sem tilgreind eru þau verkefni sem NORA vinnur á árinu.

NORA er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni auk framlags frá öllum fjórum aðildarlöndunum. Skrifstofa NORA er í Þórshöfn í Færeyjum. Í hinum löndunum eru fjórir tengiliðir á landsskrifstofum á Grænlandi, Íslandi og í Vestur- og Norður-Noregi.

Starfsemi NORA skiptist í þrjú skilgreind þróunarsvið með eftirfarandi áherslur:

Verkefnastuðningur NORA, sem ætlað er að búa til mikilvægan snertiflöt á svæðinu og skapar tækifæri til að ná upp markfjölda (þeim fjölda fólks sem þarf til þess að samfélög séu sjálfbær) á forgangssvæðum.

Áætlanagerð NORA, sem ætlað er að hafa áhrif á áætlanagerð á svæðinu í gegnum stefnumótandi aðgerðir og niðurstöður úr verkefnum.

Tengslamyndun NORA, sem ætlað er að koma á nýjum tengslanetum á milli aðila og stofnana á svæðinu, ásamt því að þróa fyrirliggjandi tengslanet, til þess að efla samlegð í gegnum samvinnu.

Fjármögnun verkefna

NORA býður fram styrki við fjármögnun samstarfsverkefna þar sem þátttakendur eru frá að minnsta kosti tveimur NORA-löndum. NORA er ekki aðili að þessum verkefnum en veitir þeim fjárhagslegan stuðning að því gefnu að þau teljist stuðla að þeim markmiðum sem lýst er í skipulagsáætlun NORA. Almennt er lögð áhersla á að styrkja samstarfið á milli aðila atvinnulífsins og annarra aðila í löndunum fjórum á NORA-svæðinu.

Hægt er að sækja um styrki tvisvar á ári. Nálgast má frekari upplýsingar um verkefnastyrki NORA undir Fjármögnun verkefna.

Stefnumótandi aðgerðir

NORA á frumkvæði að og tekur þátt í stefnumótandi verkefnum sem stuðla að því að efla samstarfið á milli landanna fjögurra á NORA-svæðinu, Færeyja, Grænlands, Íslands og strandsvæða Noregs. NORA heldur t.d. ráðstefnur og vinnur greiningar á þeim áskorunum sem einstök svæði standa frammi fyrir. NORA tók m.a. þátt í greiningu OECD á svæðinu þar sem áskoranir og möguleikar á NORA-svæðinu voru kortlagðir.

NORA er einnig stjórnvaldseining eða aðalskrifstofa fyrir aðgerðir, eins og t.d. formennskuverkefni Norðurlandanna í „Vækst i Blå Bioøkonomi“ (2015-2017).

NORA miðlar viðeigandi upplýsingum til almennings á Norðuratlantssvæðinu. Fréttagreinar sem skrifaðar eru fyrir hönd NORA eru birtar á heimasíðu samtakanna. Enn fremur eru stöðugt birtar ábendingar um fréttir og viðburði á svæðinu á www.facebook.com/noraregion, sem og á Twitter.